Ferill 844. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1625  —  844. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um skaðaminnkandi aðgerðir vegna ópíóíðavanda.


     1.      Hefur ráðherra kynnt sér „safer supply“-þjónustu sem hefur verið innleidd í Kanada?
    Heilbrigðisráðherra hefur lagt þunga áherslu á skaðaminnkandi nálgun í þessum málaflokki og telur brýnt að leggja áherslu á að draga úr neikvæðum afleiðingum vímuefnanotkunar og stuðla að jákvæðum breytingum fyrir notendur og samfélagið í heild. Nálgast þarf málaflokkinn af mildi, án fordóma, þvingunar og mismununar, og ekki á að vera forsenda fyrir veittri þjónustu að fólk hætti að nota vímuefni.
    Kanada býður eins og önnur lönd upp á gagnreynda viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn sem byggir m.a. á uppbótarlyfjameðferð með mismunandi ópíóíðum sem koma þá í staðinn fyrir þá ópíóíða sem misnotaðir voru. Dauðsföllum af völdum ofskömmtunar ópíóíða fjölgar þó enn í Kanada og er það m.a. rakið til þess að sterkum ópíóíðum á borð við fentanýl er blandað í t.d. heróín sem fæst á ólöglegum markaði.
    Viðbrögð yfirvalda við fjölgun ofskömmtunardauðsfalla fólust m.a. í því að Substance Use and Addictions Program fjármagnaði tíu tilraunaverkefni árið 2020 í þremur fylkjum Kanada sem bera heitið Safer Supply. Byggjast verkefnin á því að í stað þess að notendur kaupi vímuefni á ólöglegum markaði með þeim hættum sem slíkum kaupum fylgja fá þeir ávísað ópíóíðum, örvandi vímuefnum eða bensódíasepín lyfjum frá fagfólki. Tilraunaverkefnin eru starfrækt, m.a. í samstarfi við heilsugæslur, búsetuúrræði á vegum félagsþjónustu, apótek í nærumhverfi markhópsins og neyslurými. Fyrstu niðurstöður tilraunaverkefnanna eru jákvæðar og sýna að dauðsföllum vegna ofskömmtunar fækkar, notkun vímuefna sem fást á ólöglegum markaði minnkar, bráðakomum og innlögnum notenda fækkar, tíðni sýkinga lækkar og notendur nýta betur félagsleg úrræði.
    Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp 6. september 2023 og fól honum að semja fyrstu íslensku skaðaminnkunarstefnuna og leggja til aðgerðaáætlun sem byggist á þeirri stefnu. Í starfshópnum eiga sæti 19 fulltrúar innri og ytri hagsmunaaðila sem hafa bein eða óbein áhrif á málaflokkinn.
    Meðal annars var óskað eftir því að starfshópurinn skoðaði aðgerðir er fælu í sér úrræði eins og lágþröskuldaaðgengi að heilsugæslu, efnagreiningu vímuefna, fræðslu um örugga notkun vímuefna og fjölbreyttari viðhaldsmeðferðir, þ.m.t. notkun mismunandi lyfja í slíkri meðferð. Starfshópurinn vinnur einnig að mati á stöðu skaðaminnkunar á Íslandi sem og rýnir þróun skaðaminnkunar á Norðurlöndum, í Evrópu og annars staðar í heiminum.

     2.      Telur ráðherra að slík þjónusta gæti orðið hluti af skaðaminnkandi aðgerðum vegna ópíóíðavanda hér á landi?
    Starfshópurinn leggur fram drög að stefnu og aðgerðaáætlun sem tekur mið af þróun skaðaminnkunar á heimsvísu en tekur ekki síður mið af þörfum fólks í íslensku samfélagi sem notar vímuefni.
    Ráðherra mun fela áðurnefndum starfshópi að meta hvort þjónusta á borð við þá sem veitt er í tilraunaverkefnum Safer Supply í Kanada gæti orðið hluti af skaðaminnkandi aðgerðum hér á landi, með tilliti til annarra aðgerða og samhengi við önnur úrræði.
     3.      Hyggst ráðherra leggja til og fjármagna nýjar meðferðir og aðgerðir til að eiga við ópíóíðavanda hér á landi? Ef svo er, hverjar? Ef svo er ekki, hvers vegna?
    Á Íslandi eru það SÁÁ, Landspítali og geðheilsuteymi fangelsa sem veita viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn. Samstarf er milli þjónustuveitenda, m.a. um eftirfylgd með tilliti til viðhaldsmeðferðar.
    Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) hefur verið falið að gera einn heildarsamning um þjónustu SÁÁ, þ.m.t. viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn. SÍ vinnur nú að kostnaðarmati varðandi aukið aðgengi að viðhaldsmeðferð. Sem hluti af heildarsamningi er gert ráð fyrir að einnig verði samið um flýtimóttöku þar sem einstaklingum í bráðum vanda er tryggt aðgengi að gagnreyndri heilbrigðisþjónustu á borð við fráhvarfsmeðferð, vímuefnameðferð eða viðhaldsmeðferð sem mætir þörfum þeirra. SÍ vinnur að kostnaðarmati vegna þessarar þjónustu. Samningaviðræður standa nú yfir og ganga vel.
    Þó nokkrar aðrar aðgerðir eru yfirstandandi sem byggja á skaðaminnkandi hugmyndafræði gagnvart ópíóíðavanda:
    Aðgengi að neyðarlyfinu Nyxoid-nefúða hefur verið tryggt á landsvísu. Heilbrigðisráðuneytið greiðir allan kostnað vegna lyfsins en Landspítali sér um birgðahald og dreifingu þess. Aðgengi að því er tryggt, notendum að kostnaðarlausu, í gegnum fjölda aðila, s.s. heilbrigðisstofnanir, lögregluembættin, aðila sem reka gistiskýli fyrir heimilislausa, Rauða krossinn á Íslandi, sem sinnir m.a. sjúkraflutningum og rekur skaðaminnkunarúrræðið Frú Ragnheiði í Reykjavík, á Akureyri og á Suðurnesjum, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, aðstandendur notenda o.fl.
    Tilraunaverkefni um niðurtröppun ópíóíða, svefnlyfja og róandi lyfja í samstarfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilsuverndar, Reykjanesapóteks og sprotafyrirtækisins Prescriby er hafið. Verkefnið felst í persónusniðinni meðferðaráætlun fyrir einstaklinga sem taka sterk verkjalyf eða svefn- og róandi lyf að staðaldri og vilja aðstoð til að hætta eða draga úr notkun þeirra. Tilraunaverkefnið er til sex mánaða og áætlað að hægt verði að veita að lágmarki 300 einstaklingum þessa þjónustu á tímabilinu. Stefnt er að því að útvíkka verkefnið ef vel gengur þannig að þjónustan verði aðgengileg um allt land.
    Staðbundið neyslurými mun opna á næstu vikum á höfuðborgarsvæðinu, byggt á samstarfi Reykjavíkurborgar og Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu sem mun annast þjónustuna með fjármagni frá heilbrigðisráðuneytinu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.
    Fyrirhugað er að setja af stað tilraunaverkefni um viðhaldsmeðferð í endurhæfingarskyni sem tryggir samþætta þjónustu félags- og heilbrigðiskerfisins í nærumhverfi hlutaðeigandi einstaklinga. Verkefnið er í mótun.
    Áðurnefndur starfshópur mun skila lokaskýrslu til ráðherra á næstu vikum sem inniheldur drög að stefnu og aðgerðaáætlun. Þar verða að finna aðgerðir, yfirstandi ásamt nýjum áherslum, þar sem tilgangi hverrar aðgerðar verður lýst, tilgreindir ábyrgðaraðilar og samstarfsaðilar, ásamt því að hver aðgerð verður kostnaðarmetin.